Viðskipti innlent

Yfirtökutilboð Lur Berri til hluthafa Alfesca samþykkt

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Yfirtökutilboð Lur Berri Iceland ehf. til hluthafa Alfesca hf. sem

hófst 2. júlí 2009 lauk í gær. Yfirtökutilboðið var samþykkt af eigendum tæplega 1,4 milljón hluta í Alfesca hf. sem samsvarar 23,04% af útgefnu hlutafé félagsins.

Lur Berri Iceland ehf. hefur því tryggt sér rúmlega 1,5 milljón hluti í Alfesca, eða sem samsvarar 25,96% af útgefnu hlutafé félagsins en Luc Berri átti við upphaf tilboðsins rúmlega 171 þúsund hluti eða 2,92% af útgefnu hlutafé félagsins.

Fyrir tilboðið áttu samstarfsaðilar, sem samanstanda af Lur Berri Holding SAS, móðurfélagi Lur Berri Iceland, Kjalar Invest B.V., Alta Food Holding B.V., Kaupthing Singer & Friedlander Ltd. og tilteknir stjórnendur Alfesca hf., samanlagt 68,3% af útgefnu hlutafé Alfesca hf.

Í kjölfar tilboðsins hafa samstarfsaðilarnir tryggt sér 91,34% af útgefnu hlutafé Alfesca hf. og munu fara með samsvarandi atkvæðisrétt þegar uppgjör á yfirtökutilboðinu hefur farið fram.

Hluthafar sem samþykkt hafa tilboðið munu fá kaupverð hlutanna greitt eigi síðar en 24. ágúst 2009 í samræmi við skilmála tilboðsins, samhliða því að Lur Berri Iceland ehf. fær hlutina framselda.

Í ljósi þess að samstarfsaðilarnir eiga sameiginlega meira en 90% útgefins hlutafjár og fara með meira en 90% atkvæðisréttar í Alfesca hf. hyggst Lur Berri Iceland ehf. nú leggja til við stjórn félagsins að hlutir í eigu annarra hluthafa Alfesca hf. verði innleystir.

Ennfremur, líkt og kveðið er á um í tilboðsyfirlitinu sem dagsett er 25. júní 2009, munu samstarfsaðilarnir nú gera viðeigandi ráðstafanir svo hlutafé Alfesca hf. verði tekið úr viðskiptum af aðallista NASDAQ OMX Iceland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×