Innlent

Vegagerðin stendur við áform um Vestfjarðaveg

Vegagerðin hyggst standa við fyrri áform um að þjóðvegurinn um sunnanverða Vestfirði verði lagður um Teigsskóg og þvert yfir Gufufjörð og Djúpafjörð. Vegamálastjóri segir að nýfallinn dómur Hæstaréttar komi ekki í veg fyrir þessa umdeildu vegarlagningu.

Eigendur sumarbústaða við utanverðan Þorskafjörð hafa lengi barist hart gegn áformum Vegagerðarinnar og fengið til liðs við sig náttúruverndarsamtök. Í fyrradag felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð Jónínu Bjartmars þáverandi umhverfisráðherra um að heimila vegarlagninguna.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að tvennt sé í stöðunni, annarsvegar að hætta við og leggja veginn í staðinn yfir hálsana, sem hann telur ólíklegt, eða að fara í nýtt umhverfismat með leiðina um Teigsskóg og yfir firðina, sem hann telur að verði ofaná, en næstu skref verði ákveðin á næstu dögum.

Vegamálastjóri segir að dómur Hæstaréttar lúti að því að umhverfisráðherra hafi ekki verið heimilt að nota umferðaröryggi sem rökstuðning. Það hafi verið formleg atriði sem felldu málið og Hæstiréttur hafi verið ósammála héraðsdómi um að frekari rannsókna væri þörf vegna vegarlagningar yfir firðina.

Kristján L. Möller samgönguráðherra kveðst eftir helgi ætla að ræða við sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum og Vegagerðina um hvernig brugðist verði við hæstaréttardómnum og um næstu skref.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×