Erlent

Slasaðist á auga þegar iPhone sprakk

Átján ára karlmaður í Frakklandi slasaðist á auga þegar iPhone sími kærustu hans sprakk við venjulega notkun. Fleiri dæmi eru um að iPhone tæki hafi sprungið. Yfirvöld í Japan hafa einnig hafið rannsókn á því af hverju blossar stóðu út úr tónhlöðu af gerðinni iPod nano meðan hann var í hleðslu.

Franska blaðið La Provence sagði frá því á þriðjudaginn að átján ára strákur, Romain, búsettur í Aix-en-Provence í Suður-Frakklandi hefði fengið iPhone síma kærustu sinnar lánaðan. Suðað hafi í símanum áður en hann hafi splundrast. Í viðtali við blaðið segir Romain að hann hafi fengið glerbrot í annað augað en síminn hafi verið þrjátíu sentimetra fjarlægð frá andliti hans.

Móðir Romain sagði í samtali við AFP fréttastofnun að hann hefði ekki slasast alvarlega en þrátt fyrir það væri hann að íhuga málsókn á hefur Apple tölvurisanum sem framleiðir iPhone símtækin.

Móðir Romain og systir hans segjast nú geyma iPhone símana sína í kassa úr plexígleri fari svo að þeir springi líka.

Eftir að fréttin um iPhone sprenginguna var birt í La Provence kom annar iPhone notandi fram í Marseille í Frakklandi og greindi frá því að skjárinn á sínu símtæki hefði brotnað án nokkurra sjáanlegra skýringa þegar hann var í miðju símtali.

Franska fréttastöðin France 24 hafði samband við fulltrúa Apple í Frakklandi og engin svör munu hafa fengist þaðan. Bæði AFP og Reuters fréttastofurnar hafa leitað viðbragaða frá Apple án árangurs.

Fregnir af bilunum sem þessum eru ekki einskorðaðar við Frakkland. Fimmtugur karlmaður í Liverpool á Englandi greindi Lundúnablaðinu Times fyrir skömmu frá því að hann hefði kastað iPhone Touch tæki ellefu ára dóttur sinnar í garðinn við hús þeirra andartökum áður en það sprakk. Ken Staanborough segir að tækið hafi byrjað að suða og hitnað í höndunum á honum og svo hafi virst sem gufa stigi upp frá því áður en hann hafi hent því út. Hann segir að Apple hafi boðist til að endurgreiða tækið gegn því að feðginin skrifuðu undir samning um að greina ekki frá þessu opinberlega.

Samkvæmt France 24 er vitað um fleiri tilvik sem þessi í Bandaríkjunum Bretlandi og Japan en fulltrúar Apple ætíð neitað að tjá sig. Einnig greindir franska stöðin M6 frá því að japönsk yfirvöld hafi í fyrra fyrirskipað rannsókn á því afhverju blossar hafi gengið út úr iPod nano hlaðvarpa frá Apple meðan hann var í hleðslu. Eigandi tækisins, sem býr í Tokyo tilkynnti um það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×