Viðskipti innlent

Nýja Kaupþing í mál við BGE

Þorbjörn Þórðarson. skrifar

Nýja Kaupþing hefur stefnt BGE eignarhaldsfélagi, sem var í eigu helstu eigenda og stjórnenda Baugs, vegna hátt í tveggja milljarða króna skuldar.

1830 BGE eignarhaldsfélag var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, helsta eigenda Baugs, Gunnars Sigurðssonar og Stefáns Hilmarssonar, sem voru helstu stjórnendur Baugs og Skarphéðins Bergs Steinarssonar.

Krafa Nýja Kaupþings, 1,8 milljarðar króna, er til komin vegna láns sem bankinn veitti félaginu til hlutabréfakaupa í Baugi Group, en bankinn hafði áður eignast um það bil fimmtungshlut í Baugi þegar fyrirtækið var skráð af markaði. Að sögn Stefáns Hilmarssonar var BGE eignarhaldsfélag búið til í þeim eina tilgangi að kaupa hlutabréfin af bankanum.

Einu tryggingarnar fyrir lánum til BGE eignarhaldsfélags voru hlutabréf í Baugi Group, en þau eru verðlaus í dag. Að sögn Stefáns Hilmarssonar voru eigendur félagsins ekki í persónulegri ábyrgð fyrir lánum til þess.

Samkvæmt ársreikningi BGE eignarhaldsfélags fyrir árið 2007 var óráðstafað eigið fé félagsins tæplega 900 milljónir króna í árslok. Engar eignir eru í félaginu í dag. Fyrirséð er því að ekkert fáist upp í kröfu á hendur félaginu sem þýðir í raun tæplega tveggja milljarða króna afskrift ríkisbankans Nýja Kaupþings.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×