Enski boltinn

Keane: Hundarnir þurfa frí frá mér

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Keane er hér boðinn velkominn til Ispwich í dag.
Keane er hér boðinn velkominn til Ispwich í dag. Nordic Photos/Getty Images

Roy Keane var kynntur formlega til leiks í dag sem nýr knattspyrnustjóri Ipswich Town. Keane skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

„Fyrir þrem eða fjórum vikum áttaði ég mig á því að ég væri klár í slaginn þegar rétta tilboðið kæmi. Ég vil reyna að koma þessu liði upp á einu ári. Ef ég væri ekki klár í slaginn þá væri ég bara úti að labba með hundana mína. Hundarnir þurfa á fríi að halda frá mér," sagði Keane kátur á blaðamannafundi í dag.

Keane viðurkenndi á fundinum í dag að hafa fengið fleiri tilboð síðan hann yfirgaf Sunderland í desember. En af hverju tók hann þessu starfi?

„Tilfinningin var að það væri rétt. Metnaður klúbbsins og saga hafði líka sitt að segja. Þetta er flottur klúbbur. Ég tel mig hafa verið heppinn með þau félög sem ég hef verið hjá og tel mig heppinn að fá þetta starf. Það er mikil áskorun að koma þessu félagi aftur upp í efstu deild," sagði Roy Keane.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×