Viðskipti innlent

Skattayfirvöld geti rukkað fyrirtæki um milljarða króna

Skattyfirvöld geta í ljósi nýs skattafrumvarps rukkað fyrirtæki sem hafa farið í gegnum skuldsettar yfirtökur um marga milljarða króna. Heimild er til að taka upp framtöl fyrirtækjanna allt að sex ár aftur í tímann. Aðalsteinn Hákonarson, forstöðumaður eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra segir mýmörg dæmi um að fyrirtæki hafi farið í slíkar skuldsettar yfirtökur.

Aðalsteinn segir að sér detti í hug nýlegt dæmi þar sem menn séu að segja upp starfsfólki af því að það eigi að fara að hækka sykurskatt. „Ég hugsa að vandi þess fyrirtækis sé nú meiri af völdum slíkrar yfirtöku heldur en af völdum skattanna," segir Aðalsteinn.

Í nýju skattafrumvarpi er gerð tilraun til að girða fyrir svona viðskiptahætti. Skattyfirvöld hafa lengi haft þá túlkun að gjaldfærsla vaxta af skuldum sem tilkomnar eru vegna svona yfirtöku eigi ekki að vera frádráttarbærir. Verði þetta að lögum er ljóst að skattyfirvöld munu fara yfir skuldsettar yfirtökur síðustu ára.

„Skattayfirvöld geta tekið upp mál sex ár aftur í tímann og ef að skuldsettar yfirtökur hafa farið fram á þeim tíma að þá er hugsanlegt að skattayfirvöld geti bakfært vexti af svona lánum sem hafa verið gjaldfærð á þeim tíma hafi þau verið gjaldfærð í skattalegu tilliti," segir Aðalsteinn.

Aðalsteinn segir um mikla fjármuni að ræða. Þeir geti numið fleiri milljörðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×