Viðskipti innlent

Gjaldeyrisforða má nota í gróðaskyni

Íslendingar þurfa gjaldeyrisvaraforða til að geta staðið við afborganir erlendra lána til ríkissjóðs og stundað hófleg inngrip á gjaldeyrismarkaði.
Íslendingar þurfa gjaldeyrisvaraforða til að geta staðið við afborganir erlendra lána til ríkissjóðs og stundað hófleg inngrip á gjaldeyrismarkaði.

„Það hefur ekkert upp á sig að hlaða upp gjaldeyrisforða þegar vel árar ef fólk heykist á að nota hann á úrslitastundu. Hið opinbera getur haft lengri sjóndeildarhring en einkageirinn og því getur hann tekið stöðu með eða á móti eigin gjaldmiðli, jafnað sveiflur og grætt á öllu saman," segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Már var aðalræðumaður á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands í gær. Hann ræddi um stöðu efnahagsmála, þar á meðal gjaldeyrishöft í skugga fjármálahrunsins. Hann benti á að einn af lærdómum fjármálakreppunnar sé að rétt beiting gjaldeyrisforða geti skipt sköpum hvað snerti varðveislu peningalegs og fjármálalegs stöðug­leika við erfiðar aðstæður. Hann benti á að Ástralar hefðu nýtt gjaldeyrisvaraforða sinn með árangursríkum hætti.

Þá benti Már á að ekki mætti verja gengið gegnum þykkt og þunnt. Inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkað um þessar mundir miðuðu að því að draga úr óstöðugleika gengisins og koma í veg fyrir „spírala gengislækkunar".

Hann sagði mjög hafa dregið úr inngripum bankans á gjaldeyris­markaði. Bankinn hafi fram til þessa notað átta milljónir evra, jafnvirði tæpra fimmtán milljarða króna á gengi gærdagsins.

Krónan féll nokkuð fram eftir degi í gær. Gengisvísitalan rauf 240 stiga múrinn og hafði krónan ekki verið veikari á árinu. Hagfræðideild Landsbankans bendir á að Seðlabankinn hafi gripið í taumana og selt þrjár milljónir evra, tæpar 560 milljónir króna, fyrir krónur með þeim árangri að veikingin gekk að hluta til baka. Gengið endaði þó í rúmum 237 stigum, sem er með því veikara á árinu.

Í nýrri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að gengi evrunnar liggi nálægt núverandi gengi. Ein evra kostaði í gær 186 krónur. Horft er til þess að gengið styrkist á næstu þremur árum og kunni evran að lækka við það niður í 170 krónur.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×