Viðskipti innlent

Millistjórnendur Landsbankans vilja fjögurhundruð milljónir

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Millistjórnendur gamla Landsbankans gera milljóna króna kröfur í þrotabúið vegna kaupréttarsamninga. Hæsta krafan nemur um fjögurhundruð milljónum króna. Siðlaust, segir þingmaður Vinstri grænna.

Hluti af launakjörum stjórnenda bankanna voru kaupréttarsamningar sem veittu stjórnendum rétt til að kaupa hlutabréf í bönkunum á tilteknu gengi. Bankarnir báru sjálfir kostnað af kaupréttunum, þ.e. muninn á kaupverði og markaðsverði hlutabréfanna. Starfsmennirnir gátu beðið eftir því að gengi bréfanna hækkaði og nýtt kaupréttinn. Samningarnir voru oftast réttlættir með því að starfsmennirnir myndu leggja meira á sig ef velgengni fyrirtækisins yrði þeim í hag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa millistjórnendur gamla Landsbankans gert kröfu í þrotabúið vegna kaupréttarsamninga. Með öðrum orðum, starfsmennirnir krefjast bóta vegna þess að þeir hefðu átt rétt á að kaupa hlutabréf í gjaldþrota fyrirtæki.

Kröfurnar eru vel á annan tug og gæti fjölgað. Upphæðir krafnanna eru frá nokkrum milljónum upp í tugi milljóna króna. Hæsta krafan nemur um 400 milljónum króna.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, segir eðlilegt að launakröfur séu forgangskröfur. Hinsvegar megi deila um það hvað geti talist til launa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×