Viðskipti innlent

Ríkissjóður selur 14,4 milljarða í ríkis- og íbúðabréfum

Þriðjudaginn 27. október fer fram útboð á íbúðabréfum og ríkisbréfum sem lögð voru fram til tryggingar verðbréfalánum sem ríkissjóður yfirtók. Um er að ræða bréf upp á 14,4 milljarða kr. að nafnverði. Þar af eru 6,9 milljarðar í ríkisbréfum og 7,5 milljarðar í íbúðabréfum.

Í tilkynningu segir að útboðinu verði þannig háttað að öll samþykkt tilboð bjóðast kaupendum á sama verði. Lægsta samþykkta verð (hæsta ávöxtunarkrafa) ræður söluverðinu.

Seðlabankinn áskilur sér rétt f.h. ríkissjóðs til að samþykkja öll tilboð sem berast, hluta eða hafna þeim öllum. Einungis aðalmiðlurum ríkisskuldabréfa er heimilt að gera tilboð í útboðinu en þeir annast einnig tilboðsgerð fyrir fjárfesta.

Tilboð skulu sendast til Seðlabankans í gegnum Bloomberg-útboðskerfið milli kl. 09:30 og 10:00. Tilboð skulu sett fram í verðum, með þremur aukastöfum Lágmark hvers tilboðs er ein milljón króna að nafnvirði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×