Viðskipti innlent

Innlögnum fjölgar um 142% á skráningarnúmerum ökutækja

Á þessu ári hafa innlagnir skráninganúmera ökutækja aukist stórlega borið saman við undanfarin ár. Þannig voru 5239 skráningarnúmer lögð inn í september á þessu ári á meðan 2158 voru lögð inn til geymslu á sama tíma í fyrra. Þetta er 142% aukning á innlögnum skráningarnúmera á milli ára.

Í yfirliti frá Umferðarstofu segir að þessa gríðarlegu aukningu má rekja til þess að fjölmargir eigendur ferðavagna, þ.e. fellihýsa, hjólhýsa og tjaldvagna, kusu að leggja númerin inn í stað þess að færa þau til skoðunar eða eiga á hættu álagningu vanrækslugjalds.

Fram til þessa hafa eigendur árstíðabundinna ökutækja lagt skráningarnúmer þeirra inn til geymslu á veturna til þess að fá felld niður opinber gjöld og eftir atvikum tryggingar. Á þetta fyrst og fremst við um ökutæki sem eru notuð mest yfir sumartímann, líkt og húsbifreiðar, fornbifreiðar og bifhjól.

Þessi mikla aukning sem nú á sér stað má fyrst og fremst rekja til breyttra skoðunarreglna sem tóku gildi fyrr á þessu ári og fólu í sér að skylt er að skoða svonefndra ferðavagna, þ.e. hjólhýsi, tjaldvagna og fellihýsi. Skoðun þessara ökutækja er nú áskilin fyrir 1. ágúst á skoðunarári og skal henni lokið fyrir 1. október á skoðunarári.

Með því að leggja númer þessara ökutækja inn til geymslu gátu eigendur ökutækjanna komið í veg fyrir að 15 þúsund króna vanrækslugjald yrði lagt á óskoðuð ökutækin. Í raun er þó um frest að ræða því þegar eigandi ökutækisins hyggst taka það aftur í notkun verður hann að byrja á að láta skoða ökutækið. Hjá Umferðarstofu er hægt að fá akstursheimild til einnar viku eftir að númerin eru tekin út en ef ekki er búið að skoða ökutækið innan þess frest leggst vanrækslugjald á það.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×