Erlent

Koizumi les inn á teiknimyndir í ellinni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Junichiro Koizumi.
Junichiro Koizumi.

Junichiro Koizumi, fyrrum forsætisráðherra Japans, er langt í frá sestur í helgan stein þótt hann sé hættur í pólitíkinni og ljáir nú teiknimyndapersónum ómþýða rödd sína.

Japan hefur alið af sér marga bragðminni stjórnmálamenn en Koizumi. Fyrir utan skörulegt útlit sitt er maðurinn þekktur Elvis Presley-aðdáandi og gegndi embætti forsætisráðherra Japans tímabilið 2001 til 2006 fyrir Frjálslynda lýðræðisflokkinn. Á embættistíma sínum tókst Koizumi það sem engum öðrum japönskum embættismanni hefur nokkurn tímann tekist en það var að einkavæða póstþjónustu landsins hversu merkilegt sem það svo sem þykir meðal okkar Evrópubúa.

Koizumi var einna umdeildastur fyrir að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak en það gerðum við Íslendingar svo sem líka. Það sem nú vekur einna mesta athygli Japana á hinum silfurhærða fyrrum leiðtoga er að ofurhetjan Ultraman King, sem er þekkt japönsk teiknimyndapersóna, skartar rödd gamla ráðherrans. Einmitt, Koizumi styttir sem sagt dægur sín í ellinni með því að lesa inn á teiknimyndir og er víst nokkuð fær á því sviði að sögn þeirra sem til þekkja.

Talsmaður Tsuburaya Productions, sem ber ábyrgð á teiknimyndunum um Ultraman King, segir að í huga stjórnenda þar á bæ hefði ekki mátt fá heppilegri rödd en þá sem berst úr barka forsætisráðherrans fyrrverandi og eru menn nú himinlifandi yfir væntanlegri sigurför hasarmyndarinnar „Mega Monster Battle Ultra Galaxy" þar sem Koizumi er sagður fara gjörsamlega á kostum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×