Viðskipti innlent

Týnt skuldabréf á tæplega 140 milljarða króna veldur titringi

Týnt skuldabréf Glitnis upp á tæplega 140 milljarða króna veldur titringi innan skilanefndar Glitnis og Íslandsbanka. Formaður skilanefndar Glitnis segir að allar ásakanir um þöggun málsins séu úr lausu lofti gripnar.

Á fundi kröfuhafa Glitnis á fimmtudaginn var greint frá því að skuldabréf upp á samtals 752 milljónir evra, sem jafngildir tæplega 140 milljörðum króna, hefðu ekki verið bókfærð sem skuld í safni bankans fyrir bankahrunið á síðasta ári. Með öðrum orðum, bankinn vissi ekki um skuldbindingu upp á 140 milljarða sem virðist hafa verið týnd í bókhaldinu.

Skuldabréfin birtust því eins og skrattinn úr sauðaleggnum við litla hrifningu starfsmanna skilanefndar bankans, en málið hefur valdið nokkrum titringi meðal kröfuhafanna. Um er að ræða 5 prósent af heildarskuldbindingum Glitnis, en skuldir bankans eru hvorki meira né minna en 14 milljarðar evra, sem nemur 2.590 milljörðum króna. Skilanefndin hefur nú ráðið óháða endurskoðendur til að fara yfir hvers vegna skuldabréfin týndust í bókhaldinu.

Starfsmenn skilanefndarinnar urðu misræmisins fyrst varir í kjölfar samskipta við fyrirtækið Euroclear, sem annast skráningu á viðskiptum með skuldabréf. Að sögn Árna Tómassonar fékk nefndin fyrst upplýsingar um málið fyrir nokkrum dögum. Allar ásakanir um að nefndin hafi vitað lengur um mistökin og ekki viljað greina frá þeim séu því úr lausu lofti gripnar.

Frestur til að lýsa kröfum í Glitni banka rennur út hinn 26. nóvember næstkomandi. Þá á að liggja fyrir hverjir verða stærstu hluthafar Íslandsbanka en bankinn var, eins og Landsbankinn og Kaupþing, mestmegnis fjármagnaður með útgáfu skuldabréfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×