Viðskipti innlent

New York Times fjallar um skýrslu Íslandsbanka

Bandaríska stórblaðið The New York Times fjallar í dag um skýrslu sem unnin var af Íslandsbanka um möguleika Bandaríkjamanna á því að auka orkuöflun sína með sjálfbærri orku, það er einkum gufuorku frá jarðhitasvæðum.

Skýrslan var unnin af starfshópi bankans á sviði sjálfbærrar orkuöflunnar en forstjóri hópsins er Alex Richter.

Fram kemur í skýrslunni að Bandaríkin gætu stóreflt orkuvinnslu sína með gufuaflsvirkjunum á jarðhitasvæðum. Telja skýrsluhöfundarnir að hægt sé að framleiða 40.000 megawött með núverandi tækni og að með þróun á nýjum gufuaflskerfum sé hægt að auka þá vinnslu um rúmlega 500.000 megawött í viðbót.

Sem stendur framleiða Bandaríkjamenn 3.100 megawött með gufuaflsvirkjunum sem fá orku sína af jarðhitasvæðum en í landinu eru nú 70 slíkar virkjanir starfræktar.

Skýrsluhöfundar segir að þótt orkan sé vissulega til staðar skorti töluvert á að fjármagn fáist til að nýta hana. „Fjármögnun og möguleikar á hlutafé eru eftir sem áður helstu hindranirnar fyrir jarðhitageirann," segir í skýrslunni.

New York Times ræðir þetta atriði við C. J. Arrigo hjá Glacier Partners ráðgjafafyrirtækis á sviði sjávarafurða og jarðorkuvinnslu. Arrigo segir að hár stofnkostnaður vegna boranna, og áhættan fyrir fjárfesta fram að því að holurnar hafa sýnt að vinnslan borgi sig, sé helsti flöskuhálsinn fyrir fjárfestingar í greininni.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru þó áhugasöm um sjálfbæra orkuvinnslu og hafa sett í gang áætlun um að auka hana á næstu árum með t.d. skattaafsláttum til þeirra fjárfesta sem setja fé í gufuaflsvirkjanir.

Þess má geta að Glacier Partners var stofnað af Glitni á sínum tíma og er nú undir stjórn Magnúsar Bjarnasonar en fyrirtækið er staðsett í New York.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×