Viðskipti innlent

HS Orka hagnast um 2,2 milljarða fyrstu 9 mánuði ársins

Hagnaður HS Orku á fyrstu níu mánuðum ársins var rúmlega 2,2 milljarðar kr. Eiginfjárhlutfall er komið í 23,0% en var 16,3% í upphafi ársins.

Til samanburðar var tap að fjárhæð tæplega 11,7 milljarðar kr. allt árið 2008. Þegar tekið er tillit til tekna og gjalda sem færð eru á eigið fé er heildarhagnaður tímabilsins 2,6 milljarðar kr. samanborið við tap að fjárhæð 4.744 millj. kr. á árinu 2008.

Samkvæmt yfirliti um heildarafkomu námu rekstrartekjur HS Orku hf. á tímabilinu tæplega 4,4 milljarðar kr., en voru rúmir 5,4 millj. kr. á allt árið áður. Vænt hækkun rekstrartekna allt árið 2009 nemur 7% frá árinu 2008. Hækkun tekna er að hluta til vegna þjónustutekna vegna veittrar þjónustu til HS Veitna hf., en félögin hafa gert þjónustusamning sín á milli þar að lútandi.

Framleiðslukostnaður og kostnaðarverð sölu nam 3.024 milljónir kr., samanborið við 3.066 milljónir kr. allt árið áður. Hækkun framleiðslukostnaðar og kostnaðarverðs sölu stafar mest megnis vegna fyrstu hreinsunar borhola á Reykjanesi auk kostnaðar vegna veittrar þjónustu við HS Veitur hf.

Hrein fjármagnsgjöld voru 615 milljónir kr. á tímabilinu samanborið við hrein fjármagnsgjöld að fjárhæð 15,5 milljarða kr. allt árið áður. Veiking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum leiddi til 1.225 milljóna kr. gengistaps, en allt árið áður nam gengistap 10,4 milljörðum kr.

Skuldir HS Orku hf. nema tæplega 28,8 milljörðum kr. samkvæmt efnahagsreikningi, þar af eru skammtímaskuldir tæplega 5,6 milljarðar kr. Skuldir hafa lækkað um 1.770 milljónir kr. frá áramótum. Af því nemur lækkun langtímaskulda 7 milljóna kr. Skammtímaskuldir lækka um 1.762 milljóna kr., sem skýrist að mestu leyti af greiðslu vaxtaberandi skammtímalána og greiðslu skammtímaskulda vegna framkvæmdakostnaðar.

Félagið uppfyllir ekki fjárhagsskilyrði í lánasamningum um lágmarks eiginfjárhlutfall og rekstrarhlutföll. Félagið hefur nú náð samkomulagi við NIB (Norræna fjárfestingabankann) og CEB (Þróunarbanka Evrópu) og samkomulag við EIB (Fjárfestingarbanki Evrópu) er á lokastigi.

Í samræmi við samkomulagið munu bankarnir afsala sér rétti til gjaldfellingar vegna brota á upphaflegum fjárhagsskilyrðum í ákveðin tíma og skipta þeim út fyrir ný fjárhagsskilyrði til skamms tíma. Lánasamningar með brotin fjárhagsskilyrði eru sett fram til samræmis við upphafleg samningsákvæði.

Horfur um rekstur HS Orku hf. eru góðar að því gefnu að samningar við alla lánadrottna félagsins um ný fjárhagsskilyrði og fleira um núverandi lán fyrirtækisins. Umsvif fara vaxandi og áfram verður unnið að aukinni orkuvinnslu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×