Viðskipti innlent

Ríkisreikningur 2008: Hallinn nam 216 milljörðum

Hallinn á rekstri ríkissjóðs á árinu 2008 nam 216 milljörðum kr. eða 46% af tekjum ársins. Þetta er alger viðsnúningur miðað við árið 2007 þegar 89 milljarða kr. afgangur, eða 18%, varð af tekjum ársins.

Þetta kemur fram í nýútkomnum Ríkisreikningi 2008. Þar segir ennfremur að í árslok hafi eigið fé ríkissjóðs verið neikvætt um 342 milljarða kr. Árið áður var það jákvætt um tæpa 10 milljarða kr. „Stærstan hluta af þessum viðsnúningi má rekja til greiðsluþrots viðskiptabankanna þriggja í október," segir í tilkynningu um málið.

Tekjur ársins 2008 námu alls 472 milljörðum kr. eða 32% af landsframleiðslu. Árið á undan námu tekjurnar 486 milljörðum kr. eða 37% af landsframleiðslu.

Gjöldin reyndust hinsvegar 688 milljarðar kr. á móti 398 milljörðum kr. árið 2007. Af gjöldunum í fyrra voru 192 milljarðar kr. vegna tapaðra krafna í kjölfar bankahrunsins. Hækkun lífeyrisskuldbindinga kostaði 41 milljarð kr. og afskriftir skattkrafna námu 12 milljörðum kr.

Hrein lánsfjárþörf nam 398 milljörðum kr. í fyrra eða 27% af landsframleiðslu. Stærsti pósturinn hér er afskrift á yfirtöku á lánum hjá Seðlabanka Íslands upp á 175 milljarða kr. Hér er um svokölluð „ástarbréf" að ræða eða kaup Seðlabankans á skuldabréfum viðskiptabankanna þriggja en þau námu í heild 345 milljörðum kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×