Viðskipti innlent

Verðbólguhjöðnun hægari en gert var ráð fyrir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Greiningadeild Íslandsbanka gerir ráð fyrir hægari verðbólgu en áður var talið. Mynd/ Anton.
Greiningadeild Íslandsbanka gerir ráð fyrir hægari verðbólgu en áður var talið. Mynd/ Anton.
„Þótt enn séu horfur á allhraðri hjöðnun verðbólgu hefur dregið nokkuð úr bjartsýni okkar á að hún verði orðin í takti við nágrannalönd Íslands þegar nýtt ár heilsar," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Greiningadeild Íslandsbanka segir að þó séu í raun aðeins tveir þættir sem þrýsti vísitölu neysluverðs upp á við þessa dagana; gengisfall krónu og hækkun neysluskatta. Gengi krónu sé nú ríflega 8% lægra en í upphafi árs. Veiking krónunnar, og ekki síður vaxandi vantrú á að styrking hennar sé í vændum á næstunni, hafi orðið til þess að hækka verð innfluttra vara allhratt undanfarna mánuði og sjái ekki fyllilega fyrir endann á þeirri verðhækkun enn.

Greiningadeild Íslandsbanka gerir ráð fyrir að neysluverðsvísitalan hækki um 1,4% á þriðja ársfjórðungi, og séu áhrif krónu þar langstærst. Spá Greiningadeildarinnar gerir ráð fyrir að verðbólgan mælist 5,5% í upphafi næsta árs en að neysluverðsvísitalan sé líklegri til að lækka en hækka á komandi ári. Byggir spáin á þeim forsendum að krónan rétti hægt og rólega úr kútnum á næsta ári, íbúðaverð haldi áfram að lækka og hækkun launa á vinnumarkaði verði mjög hófleg.

Í spánni er ekki gert ráð fyrir frekari hækkun neysluskatta vegna þess að ógerningur er að festa hendur á stærðargráðu eða tímasetningu slíkrar hækkunar að mati Greiningadeildarinnar. Þó hljóti líkur á hækkun neysluskatta að teljast mjög miklar, til að mynda um næstu áramót, enda margar tillögur um slíka hækkun að finna í nýlegri áætlun fjármálaráðuneytis um jöfnuð í ríkisfjármálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×