Viðskipti innlent

Gríðarleg hækkun álverðs

Álverð miðað við þriggja mánaða framvirka samninga stendur nú í tæpum 1.950 dollurum tonnið og langtímaverð er komið yfir 2.000 dollara. Slíkt hefur ekki gerst síðan síðastliðið haust. Hækkandi álverð kemur til með að bæta vöruskiptin í ágúst um fleiri milljarða.

Fyrir tæpum tveimur vikum greindi Vísir frá því að álverð væri á hraðri uppleið en þá stóð álverðið í 1.738 dollurum tonnið. Hefur álverðið því hækkað um rúm 12 prósent á tæpum tveimur vikum. Það sem af er ári nemur hækkunin tæplæga 25 prósentum. Í byrjun árs stóð álverðið í rúmum 1.560 dollurum.

Þróun álverðs hefur talsvert mikið að segja fyrir viðskiptajöfnuð Íslands á komandi árum. Álútflutningur skilar þessa dagana álíka miklum gjaldeyristekjum og útflutningur sjávarafurða.

Hins vegar er sá munur á að innflutt aðföng til álframleiðslu eru talsvert meiri en til veiða og vinnslu, auk þess sem hagnaður rennur að lokum til hinna erlendu eigenda álveranna.

Sérfræðingar á álmörkuðum virðast sammála um að horfur séu allgóðar næstu árin. Telja þeir að áltonnið geti farið upp undir 2.900 dali að þremur árum liðnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×