Viðskipti innlent

Finnur Ingólfsson: Kannast ekki við falsað skjal

Sigríður Mogensen. skrifar
Finnur Ingólfsson.
Finnur Ingólfsson.

Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri, segir að Þorsteinn Ingason hafi á umliðnum árum sent honum fjöldann af bréfum skýrslum og sms skilaboðum þar sem Þorsteinn hafi beðið hann um aðstoð í yfir 20 ára baráttu sinni við Kaupþing um að fá bætur frá bankanum.

Uppljóstrunarsíðan wikileaks birti á föstudaginn níu sms skilaboð sem send voru frá Þorsteini til Finns á tímabilinu janúar til júní á þessu ári. Á wikileaks síðunni segir að skilaboðin bendi í fyrstu til skjalafölsunar á efstu stigum í Kaupþingi. Þorsteinn hefur átt í deilum við Kaupþing frá gjaldþroti fyrirtækis síns árið 1988. Hann hefur haldið því fram að gjaldþrotið sé afleiðing vafasamra viðskiptahátta bankans, sem þá hét Búnaðarbankinn.

SMS skilaboðin voru ætluð til að fá Finn, sem sat um tíma í stjórn bankans, til að afhenda honum skjal sem Þorsteinn telur að sanni mál sitt. Þorsteinn telur sig eiga 500 milljóna skaðabótakröfu á Kaupþing, nú Arion banka. Hann telur að bankinn hafi falsað skjal á sínum tíma og það skjal sanni mál hans.

Finnur sagði í samtali við fréttastofu í gær að Þorsteinn hafi sent honum fjöldann allan af bréfum, skýrslum og SMS skilaboðum á umliðnum árum. Þessum skilaboðum sem wikileaks hefur undir höndum muni hann hins vegar ekki sérstaklega eftir. Segir Finnur að í bréfunum hafi Þorsteinn beðið hann um að aðstoða sig í yfir 20 ára baráttu sinni við Búnaðarbankann og síðar Kaupþing um að fá bætur, þar sem hann telur hann hafa verið rangindum beittur þegar fyrirtæki hans varð gjaldþrota.

Finnur segist því miður ekki hafa getað aðstoðað Þorstein frekar en margir aðrir sem hann hafi leitað til. Finnur segist ekki kannast við falsað skjal. Fjármálaeftirlitið, dómstólar og ráðuneyti hafi áður tekið mál Þorsteins fyrir en ekki komist að þeirri niðurstöðu að hann eigi lögmæta kröfu á hendur Kaupþingi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×