Skoðun

Samþykkjum samningana

Guðrún Guðlaugsdóttir skrifar

Æskilegt væri að þingmenn hættu að hugsa um sjálfa sig og færu að hugsa fyrst og fremst um íslensku þjóðina sem heild og hagsmuni hennar. Ef Icesavesamningarnir verða felldir þá horfir verulega illa fyrir okkur. Hvernig sem þessu máli er snúið er illskásti kosturinn að samþykkja þessa samninga og hætta ekki á að þeir verði ógiltir með fyrirvörum.

Þeir sem hafa lofað að lána okkur yrðu fegnari en illskeyttustu andstæðingar samninganna hér ef þeir verða felldir. Þá þurfa þeir ekki að lána og allir hafa nóg við sína peninga að gera á krepputímum. Afneitun eða múður þýðir ekki nú. Við höfum komið okkur í þessi vandræði með samblandi af trúgirni, græðgi og andvaraleysi og við þurfum að koma okkur úr þessu. Það kostar fórnir. Og af hverju skyldu aðrar þjóðir vorkenna okkur flónsháttinn? Fólk hér hefur lítt látið slíka atburði í öðrum löndum raska ró sinni.

Íslenska þjóðin hefur oft hagað sér eins og ofdekrað barn vegna þeirrar trúar að landið hafi hernaðarlegt mikilvægi og því flest mögulegt. En sú tíð er greinilega liðin. Við eigum ekkert skjól og meira að segja Norðurlöndin myndu yfirgefa okkur ef við fellum Icesave-samningana. Þetta er líka fordæmismál. Alþjóðasamfélagið getur ekki liðið að við semjum ekki um skuldir sem ráðamenn okkar strax sl. haust viðurkenndu ábyrgð á. Annað mál er hvað verður síðar, þá mætti gera aðrar ráðstafanir. Það er mikilvægt fyrir íslenska þjóð að halda reisn. Hik og frestun í þessu máli skilar engu.

Sumir telja að neitun þings felli ríkisstjórnina. Slík niðurstaða er ólíkleg. Verði umræddur samningur felldur skipar stjórnin einfaldlega nýja nefnd. Hversu ágætir menn sem í henni sætu ættu þeir við sömu aðila að etja - en þeir væru þá orðnir illvígari en áður vegna þess að þeir telja sig þegar hafa komið til móts við sjónarmið okkar. Útkoman yrði því varla betri. En í millitíðinni færi fjöldi fólks úr landi og við værum enn verr sett. Kæru þingmenn, samþykkið þessa samninga svo við lendum ekki í enn meiri vandræðum. Betri er einn fugl í hendi en hundrað í skógi.

Höfundur er blaðamaður og rithöfundur.






Skoðun

Sjá meira


×