Viðskipti innlent

Atvinnuleysi erlendra starfsmanna á landinu er 12%

Ljóst er að atvinnuleysi meðal erlendra starfsmanna er mun meira en hið almenna atvinnuleysi og er núna um það bil 12%.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að viðsnúningur á vinnumarkaði og breyttar atvinnuhorfur eigi enn eftir að fækka erlendum starfsmönnum hér á landi og að þeir verði um það bil 9.000 talsins um mitt þetta ár.

Fjallað er um nýjar tölur frá Vinnumálastofnun í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að erlendir ríkisborgarar á íslenskum vinnumarkaði finna einna mest fyrir breyttum aðstæðum á vinnumarkaði. Alls voru 1.270 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í desember eða um það bil 16% þeirra sem án atvinnu voru þann mánuðinn.

Ástæðu þessa má eflaust rekja til þess að langflestir útlendu starfsmannanna sem hafa komið hingað til lands í atvinnuleit á undanförnum árum hafa starfað við mannvirkjagerð og iðnað, sem eru þeir geirar sem finna einna harðast fyrir samdrættinum í hagkerfinu. Gera má ráð fyrir að erlendum starfsmönnum á íslenskum vinnumarkaði hafi fækkað um 5.000 síðan í ágúst og að nú séu um það bil 11.000 útlendingar starfandi á innlendum vinnumarkaði.

Gera má ráð fyrir að einhverjir Íslendingar feti í fótspor erlendu ríkisborgaranna sem hverfa nú á brott til annarra landa í leit sinni eftir atvinnu en Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að á bilinu 5- 7.000 Íslendingar muni flytja af landi brott á þessu ári í atvinnuleit.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×