Viðskipti innlent

Grunnfé Seðlabankans lækkaði um rúm 11 milljarða

Grunnfé Seðlabanka Íslands í lok nóvember hefur lækkað talsvert frá birtingu í september eða um rúmlega 11 milljarða kr. en þá var útreikningi á grunnfé breytt og liðum fækkað sem ranglega voru þar undir.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans undir liðnum efnahagur bankans. Þar segir að grunnfé samanstendur nú einungis af almennum innstæðum, innstæðum vegna bindiskyldu og seðlum og mynt. Nemur það 84,5 milljörðum eftir breytingarnar.

Hvað aðrar stærðir í efnahagstölum Seðlabankans í nóvember varðar má nefna að erlendar eignir bankans lækkuðu um rúma 48 milljarða kr. Það varð raunar ein hækkun á lið undir erlendum eignum því gullforðinn hækkaði í verði um rúmar 900 milljónir kr. Stendur forðinn nú í rúmum 9 milljörðum kr. Ástæðan eru miklar verðhækkanir á gulli á heimsmarkaði undanfarnar vikur.

Töluvert gekk á gjaldeyrisreikninga í bankanum í nóvember og minnkuðu þeir um ríflega 48 milljarða kr. Bundnar gjaldeyrisinnistæður jukust hinsvegar um 77 milljarða kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×