Viðskipti innlent

Íslendingar að baki stærsta fraktflugsverkefni Noregs

Íslenska fraktflugfélagið Sundt Atlanta Skybridge hefur hafið umfangsmikla fraktflutninga frá Noregi en gert er ráð fyrir að flugvélar félagsins fljúgi tvisvar í viku á milli Gardermoen flugvallar við Osló til New York og Miami með stoppi í Amsterdam á heimleiðinni.

Þetta kemur fram á vefsíðu Viðskiptablaðsins. Þar segir að félagið hefur gert samning við norsk flutningsfyrirtæki og mun meðal annars flytja laxaafurðir til Bandaríkjanna. Á vefsíðunni hangar.no kemur fram að um stærsta verkefni á sviði fraktflugs í Noregi sé að ræða.

Í fyrstu ferðinni um helgina var flogið með lax og aðrar vörur til New York og Miami en í bakaleiðinni var m.a. flogið með 50 tonn af blómum frá Suður-Ameríku.

Sundt Atlanta Skybridge notar Boeing 747-230f í flutningum sínum sem tekur 105 tonn. Það var til þess tekið að aðeins tók um 15 mínútur að bóka 200 tonn eftir að opnað var fyrir viðskiptin að því er kemur fram á vef norskra flugmálayfirvalda, www.hangar.no.

Sundt Atlanta Skybridge er í eigu Air Atlanta (45 prósent), Sundt Air (45 prósent) og AJ-Select Aviation Services (10 prósent).

Félagið Marine Harvest var meðal fyrstu félaganna til að semja við Sundt Atlanta Skybridge en þeir segjast sjá fram á að ná verulegri hagræðingu með því að flytja fisk beint út með Sundt Atlanta Skybridge.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×