Viðskipti innlent

Reiknar með óbreyttum stýrivöxtum á fimmtudag

Greining Íslandsbanka reiknar með því að peningastefnunefnd ákveði að halda vöxtum bankans óbreyttum að þessu sinni. Næsta vaxtaákvörðun nefndarinnar er á fimmtudaginn kemur.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að í fundargerð síðasta fundar nefndarinnar kemur fram að nefndarmenn hafi þá verið sammála um að ef gengi krónunnar héldist stöðugt eða styrktist, og verðbólga hjaðnaði eins og spáð væri, ætti frekari slökun peningalegs aðhalds að vera möguleg. Gengi krónunnar á innlendum markaði er á svipuðum slóðum nú og hún var við vaxtaákvörðunina í byrjun nóvember.

Gjaldeyrishöftin hafa verið hert á tímabilinu sem var þess valdandi að aflandsmarkaður lagðist nær af en gengi krónunnar hefur gefið umtalsvert eftir á þeim markaði. Verðbólgan hefur lækkað líkt og spáð var. Hún stendur nú í 8,6% en var 9,7% við síðustu vaxtaákvörðun.

„Þrátt fyrir þessa þróun teljum við að peningastefnunefndin vilji gæta varúðar, líkt og hún hefur sjálf sagt, og að muni fylgja því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til að lækkun stýrivaxta verði hægfara," segir í Morgunkorninu.

„Það er þó alls ekki útilokað að nefndin ákveði að lækka vexti nú en yrði það lítil lækkun ef af yrði þ.e. 25-50 punkta lækkun veðlánavaxta og að innlánsvextir yrðu lækkaðir svipað. Rétt er að geta þess að einn af fimm nefndarmönnum lagði það til síðast að vextir yrðu óbreyttir við síðustu vaxtaákvörðun. Næsti vaxtaákvörðunarfundur peningastefnunefndarinnar er 27. janúar og er líklegra að okkar mati að nefndin ákveði að lækka vexti þá."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×