Viðskipti innlent

Hvernig á að hemja verðbólgu?

Út er komin rannsóknarritgerð Seðlabanka Íslands nr. 42 sem fjallar um tilraunir til að hafa hemil á verðbólgu í ýmsum löndum heims og þá einkum um hvers vegna sumum löndum tekst betur upp í þeim efnum en öðrum. Höfundur ritgerðarinnar er Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands.

Ritgerðin er á ensku og ber heitið: „Inflation control around the world: Why are some countries more successful than others?"

Ritgerðin fjallar um tvær meginspurningar er varða árangur í viðureign við verðbólgu og notar höfundur gögn frá fjörutíu og tveimur löndum. Fyrri spurningin snýst um hvers vegna verðbólga hefur tilhneigingu til að sveiflast meira í sumum löndum en öðrum, einkum í mjög litlum hagkerfum og í nýmarkaðsríkjum.

Meðal atriða sem talin eru skýra þetta eru einkum sveiflukennd áhættuþóknun gjaldmiðla, áhrif gengisbreytinga á verðbólgu og fyrirsjáanleiki peningastefnu. Síðari spurningin fjallar um skýringar á því af hverju dregið hafi úr sveiflum í verðbólgu á tímabilinu.

Niðurstöðurnar benda til þess að til viðbótar við ofangreindar þrjár skýristærðir, skýri upptaka verðbólgumarkmiðs þessa þróun að mestu leyti.

Ritgerðin er aðgengileg á vef Seðlabanka Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×