Viðskipti innlent

Dómur: Markmiðið að upplýsa almenning um fall Kaupþings

Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl. hjá skilanefnd Kaupþings segir að eitt af megin markmiðum þess að farið var í mál við bresk stjórnvöld vegna yfirtökunnar á Singer & Friedlander banka Kaupþings í Bretlandi var að upplýsa almenning og rannsóknaraðila um hvað í rauninni gerðist.

„Við teljum að þessu markmiði hafi verið náð enda er farið mjög nákvæmlega í undanfara yfirtökunnar og lögð fram gögn sem henni tengjast," segir Jóhannes Rúnar. „Ef við hefði ekki farið í þessa málsókn eru allar líkur á að margt af þessu hefði aldrei komið upp á yfirborðið."

Aðspurður um hvort mikill munur sé á því sem yfirmenn Kaupþings sögðu á sínum tíma og því sem kemur fram í dóminum segir Jóhannes Rúnar það vera bæði og. „Margt af því sem kom fram á sínum tíma var munnlegt en nú höfum við fengið skilmerkilega yfirlit yfir þær röksemdir sem lágu að baki aðgerðum bresku stjórnarinnar," segir hann. „Og jafnframt þau svör sem Kaupþingsmenn gáfu breskum stjórnvöldum."

Fram kemur í máli Jóhannesar Rúnars að dómurinn sýni að mjög náið samband var á milli Seðlabanka Englands, breska fjármálaeftirlitisins og breska fjármálaráðuneytisins í aðdragenda þess að Singer & Friedlander var tekinn yfir af Bretum.

„En í heildina sagt svarar dómurinn mörgum spurningum og upplýsir um atriði sem áður voru óljós og eru nú komin upp á yfirborðið," segir Jóhannes Rúnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×