Viðskipti innlent

MP banki enn með SPRON í sigtinu

Sigríður Mogensen skrifar
Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP banka.
Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP banka.

MP banki ætlar standa við kaup á útibúaneti Spron einungis ef samþykki frá Fjármálaeftirlitinu berst fljótlega. Stefnt er að því að bankinn bjóði alla almenna bankaþjónustu eftir fjórar til sex vikur.

Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP banka, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að fyrirhuguð kaup bankans á útibúaneti Spron séu ekki útilokuð en samkomulagið gangi aðeins í gegn ef svar frá Fjármálaeftirlitinu berst mjög fljótlega. Fréttastofa hafði samband við Fjármálaeftirlitið vegna þessa en fékk engin svör.

Styrmir segir að þrátt fyrir að kaup bankans á útibúaneti Spron séu í uppnámi haldi það ekki aftur af MP banka, sem hefur þegar opnað sinn eigin netbanka og er að vinna í að ráða til sín starfsfólk úr röðum Spron. Viðskiptavinir MP banka eru einkum fagfjárfestar og sparifjáreigendur en bankinn býður nú meðal annars upp á innlán, séreignarsparnað, eignastýringu og einkabankaþjónustu.

Eftir fjórar til sex vikur er gert ráð fyrir að bankinn bjóði alla almenna bankaþjónustu, meðal annars greiðslukort og veltureikninga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×