Viðskipti innlent

Hagnaður vátryggingarfélaga nam 819 milljónum í fyrra

Hagnaður innlendra vátryggingafélaga af skaðatryggingarekstri (vátryggingarekstri öðrum en líftryggingarekstri) nam 819 milljónum kr. á árinu 2008. Hagnaður félaganna af þessum rekstri nam 2,7 milljarðar kr. árið 2007.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins. Þar segir að sé afkoma Viðlagatryggingar Íslands vegna jarðskjálftans á Suðurlandi tekin með nemur samanlagt tap vátryggingafélaga af skaðatryggingarekstri 3,9 milljarða kr.

 

Í heild námu iðgjöld ársins af skaðatryggingum 37,3 milljarðar kr. samanborið við 32,9 milljarða kr. árið áður. Tjón ársins án Viðlagatryggingar námu 30,8 milljarða kr. en voru 25,9 milljarðar kr. árið áður.

 

Heildartjón með viðlagatjónum námu 38,5 milljörðum kr. Rekstrarkostnaður vegna skaðatrygginga nam 7,1 milljarði kr. samanborið við 6,2 milljarða kr. árið áður og fjárfestingartekjur námu 6,4 milljarðar kr. en voru við 5,7 milljarðar kr. árið áður.

 

Hagnaður var mestur af lögboðnum ökutækjatryggingum, 2,4 milljarðar kr., samanborið við 2,8 milljarða kr. árið áður. Eins og undanfarin ár voru frjálsar ökutækjatryggingar reknar með tapi. Samanlagt tap var 1 milljarðar kr., samanborið við 0,5 milljarðar kr. árið 2007.

 

Í heild námu iðgjöld ársins af ökutækjatryggingum 18,8 milljarðar kr., en voru 16,6 milljarðar kr. árið 2007 sem er 13,3% aukning. Tjón ársins námu 16,6 milljarðar kr. á árinu samanborið við 14,4 milljarða kr. á árinu 2007 sem er 15,4% aukning.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×