Viðskipti innlent

Kaupás kannar bótarétt sinn

verðstríð Í verðstríðinu árið 2005 fékkst mjólk nánast gefins í Bónus.
Fréttablaðið/valli
verðstríð Í verðstríðinu árið 2005 fékkst mjólk nánast gefins í Bónus. Fréttablaðið/valli

Kaupás kannar nú hugsanlegan skaðabótarétt sinn gegn Högum vegna brota síðarnefnda félagsins á samkeppnislögum. Matsmenn, sem meta eiga hugsanlegt tjón Kaupáss vegna brotanna, voru kvaddir til í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Samkeppniseftirlitið sektaði í desember síðastliðnum Haga um 315 milljónir króna vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum. Brotin áttu sér stað í verðstríði lágvöruverðsverslana árið 2005, þegar Bónusverslanirnar, í eigu Haga, buðu meðal annars mjólk og mjólkurvörur nánast ókeypis í verslunum sínum til að laða að viðskiptavini. Þetta taldi Samkeppniseftirlitið alvarlega ólögmæta undirverðlagningu, til þess fallna að veikja stöðu samkeppnisaðilanna og valda almenningi miklu tjóni.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, kom fram í fjölmiðlum á sínum tíma og sagði að tap Bónuss af verðstríðinu væri um 700 milljónir króna. Sektin sem lögð var á Haga er sú hæsta sem nokkru sinni hefur verið lögð á fyrirtæki fyrir brot gegn ákvæði samkeppnislaga um misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Málinu var skotið til áfrýjunar­nefndar samkeppnismála sem staðfesti úrskurðinn í mars.- sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×