Viðskipti innlent

AGS: Endurhanna og afskrifa þarf 66% af fyrirtækjalánum

Samkvæmt innri endurskoðun bankanna þriggja þarf að endurhanna eða afskrifa um 66% af fyrirtækjalánunum á bókum þeirra. Þetta er eitt af því sem fram kemur í vinnuskýrslu starfshóps Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um málefni Íslands hjá sjóðnum.

Samkvæmt skýrslunni er íslenski fyrirtækjageirinn verulega skuldsettur í erlendri mynt og yfir 20% af stærstu fyrirtækjunum eru í greiðslustöðvun eða gjaldþrotaskiptum. Gjaldþrotum fyrirtækja hefur fjölgað verulega á árinu í ár og eru nú 20% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Hvað heimilin varðar kemur fram í skýrslunni að 20% íslenskra heimila séu með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteignum sínum. Þar að auki spári vinnuhópurinn því að mörg fleiri heimili muni lenda í sömu aðstæðum haldi fasteignarverð áfram að falla á Íslandi eins og verið hefur. Í skýrslunni segir einnig að um 20 prósent af heimilum landsins séu með of hátt skuldahlutfall miðað við greiðslugetu.

Í bönkunum sjálfum hefur gjaldföllnum lánum fjölgað um 15 til 17% í heildina og eignamöt sem unnin hafa verið gefa dökka mynd um gæði þeirra eigna sem bankarnir hafa veð í, að því er segir í vinnuskýrslunni. Telja verður að afskrifa þurfi um 50-60% af lánunum í viðbót við þær afskriftir sem þegar hafa verið gerðar.

Hvað ríkissjóð varðar munu brúttóskuldir hans á árinu í ár aukast upp í um 125% af landsframleiðslu ársins. Fram kemur í skýrslunni að endurfjármögnun Seðlabankans hafi reynst kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir og nemi hún 18,5% af landsframleiðslu. Á móti þessu komi að endurfjármögnun bankanna sjálfra er kostnaðarminni en áður var talið og að Icesave-skuldir verði einnig minni en áður var talið.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×