Erlent

Frá Afganistan eftir 18 mánuði

Óli Tynes skrifar

Eftir langa yfirlegu og vangaveltur tilkynnti Barack Obama loks í gær að hann ætlaði að senda þrjátíu þúsund hermenn til viðbótar til Afganistans.

Hershöfðingjar hans höfðu beðið um fjörutíu þúsund hermenn og Bandaríkjamenn ætlast til þess að önnur NATO ríki leggi til það sem uppá vantar.

Fyrstu hersveitirnar verða sendar af stað fyrir jól. Með þessum liðsauka verða 100 þúsund bandarískir hermenn í Afganistan.

Jafnframt sagði forsetinn að byrjað yrði að flytja hermenn heim aftur frá landinu í júlí árið 2011.

Þetta er í fyrsta skipti sem sett er tímalína um brottflutning síðan Bandaríkin gerðu innrás í Afganistan í október árið 2001.

Bandaríkin vonast til þess að liðsaukinn og dagsetning fyrir heimflutning verði til þess að þrýsta á ríkisstjórn Hamids Karzai að taka fastar á sínum öryggismálum.

Jafnframt hefur verið tilkynnt að hafin verði stórsókn gegn talibönum á allra næstu vikum, aðallega í Helmand héraði þar sem þeir eru hvað öflugastir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×