Viðskipti innlent

Offjárfesting í Kína kallar á verndarstefnu

Búast má við flóði af ódýrum varningi frá Kína. fréttablaðið/AP
Búast má við flóði af ódýrum varningi frá Kína. fréttablaðið/AP
Kínversk stjórnvöld hafa undanfarið óspart látið fyrirtækjum í té bæði rausnarlega styrki og ódýrt lánsfé til þess að örva efnahagslíf landsins í miðri heimskreppunni. Þetta gæti þó reynst varhugaverð stefna.

Í síðustu viku varaði viðskiptaráð Evrópusambandsins við því að afleiðingarnar gætu komið jafnt Kínverjum sem heimsbyggðinni allri í koll. Þrátt fyrir litla eftirspurn má búast við straumi af ódýrum vörum frá Kína, sem líkur eru til að kalli á verndarviðbrögð í öðrum heimshlutum. „Þessi stöðugi þrýstingur útflutnings frá Kína leiðir sennilega til aukinnar verndarstefnu í framtíðinni,“ sagði Jörg Wuttke, forseti ráðsins.

Ekki er þó að sjá að nein stefnubreyting verði hjá kínverskum stjórnvöldum á næstunni.

Á föstudaginn kom leiðtogasveit Kommúnistaflokksins saman til að ræða efnahagsmál. Þar ákváðu leiðtogarnir að halda ótrauðir áfram við að örva efnahagslífið með frekari ríkisstyrkjum og lánveitingu til fyrirtækja.

Í Kína jukust fjárfestingar á fyrri helmingi þessa árs um 40 prósent frá fyrra helmingi síðasta árs. Stærstur hluti fjárstuðnings frá ríkinu hefur farið í nýja flugvelli og aðrar opinberar framkvæmdir.- gb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×