Viðskipti innlent

Beat bjartsýnn á að gengi krónunnar styrkist

Beat Siegenthaler sérfræðingur TD Securities í nýmarkaðsríkjum er bjartsýnn á að gengi krónunnar muni styrkjast á næsta ári. Þetta kemur fram í fréttabréfi Siegenthaler til viðskiptavina sinna.

 

Í bréfinu segir Siegenthaler að hann telji að gengi krónunnar geti farið í undir 170 kr. fyrir evruna en það stendur núna í rúmlega 181 kr. Yrði því um rúmlega 6% styrkingu að ræða að mati Siegenthaler. Hann er á sömu skoðun og Seðlabankinn hvað gengið varðar og notar svipuð rök fyrir áliti sínu.

 

Eins og áður hefur komið fram í fréttum er Siegenthaler vel kunnur íslenskum efnahagsmálum en undir hans stjórn var TD Securities umfangsmikið á krónubréfamarkaðinum hérlendis áður en sá markaður hrundi í kjölfar bankahrunsins s.l. haust. Krónubréfin eru nú sem óðast að hverfa enda hefur þeim verið skipt yfir í ríkisbréf í kjölfar gjaldeyrishaftanna.

 

Erlendir aðilar áttu alls 54% af útistandandi ríkisbréfum í lok júlí og 76% af ríkisvíxlum. Þessir aðila fylgjast grannt með skrifum Siegenthaler og ef hann álítur að gegni krónunnar muni styrkjast má reikna með að þeir verði ekki jafnáfjáðir og áður að skipta sínum krónum yfir í erlenda mynt.

 

Þetta gæti svo aftur leitt til þess að ekki verði jafnmikill þrýstingur og áður var talið á gengið þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt en hefja á þann feril nú í nóvember.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×