Viðskipti innlent

Hugsanlega að þiðna á botnfrosnum íbúðamarkaði

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu voru 57 í síðustu viku og er það meira en hefur verið í einni viku síðan í október í fyrra.

 

Þegar litið er á meðaltal síðustu fjögra vikna stendur það í 46 samningum á viku og er fjöldinn í síðustu viku því meiri en hefur verið að meðaltali undanfarið. Meira líf er því í fasteignaviðskiptum á þennan mælikvarða en verið hefur undanfarið.



Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að árstíðarsveiflan sé sterk í viðskiptum á fasteignamarkaði. Þannig liggja viðskiptin að töluverðu leyti niðri yfir sumarmánuðina en aukast síðan aftur með haustinu. Þannig var vikan frá 12.-18. september í fyrra veltumesta vikan frá því mars það árið. Í heild voru kaupsamningarnir 90 í þeirri viku. Fjögra vikna meðaltalið stóð þá í 84 samningum og var veltan þá vikuna yfir því og markaðurinn þannig að taka við sér þá líka.

 

Þegar farið er aftur til ársins 2007 voru samningar í vikunni 14.-20. september 250 á höfuðborgarsvæðinu og talsvert umfram fjögra vikna meðaltalið sem þá stóð í 204. Markaðurinn var þá líka að taka við sér í sömu viku. Að þessu sögðu er ekki hægt að túlka aukningu í kaupsamningum í síðustu viku á annan hátt en að um hefðbundna árstíðarsveiflu sé að ræða.



Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði bæði núna í júlí og ágúst, samtals um 1,1%, eftir að hafa lækkað samfellt frá því í júlí í fyrra samkvæmt verðvísitölu Fasteignaskrár Íslands.

 

Stór hluti af sparnaði heimilanna er bundinn í íbúðarhúsnæði og hefur sparnaður þessi rýrnað talsvert undanfarið ár eða svo með lækkun íbúðaverðs og hækkun höfuðstóls lána sem komið hefur til vegna mikillar verðbólgu og mikillar lækkunar krónunnar. Hækkun húsnæðisverðs nú væri því til þess fallin að rétta efnahag heimilanna aðeins af.



Á markaði sem er jafn lítill og íbúðamarkaðurinn er á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir, er óráðlegt að taka verðsveiflur milli einstakra mánaða í mælingum Fasteignaskrárinnar of bókstaflega.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×