Skoðun

Forgangsröðun menntamála

Oddný Sturludóttir skrifar um menntamál

Nú liggja fyrir forsendur fjárhagsáætlunar fyrir Reykjavíkurborg og myndin er dökk. Menntasvið, með starfsemi grunnskóla undir, þarf að skera niður um rúman milljarð. Fyrir einu ári tókst starfsfólk skólanna á við niðurskurð af svipaðri stærðargráðu af þrautseigju og fagmennsku. Það bíður okkar borgarfulltrúa afar erfitt verkefni í vinnu við næstu fjárhagsáætlun. Þá ríður á gott samstarf og skilning skólasamfélagsins og forgangsröðunin verður að vera sanngjörn.

Á síðasta borgarstjórnarfundi samþykkti meirihluti borgarstjórnar stofnun nýs einkarekins skólagjaldagrunnskóla, þann þriðja á tveimur árum. Nemendum í borginni fer þó fækkandi og margir grunnskólanna ekki full nýttir, það á jafnt við um almenna grunnskóla sem einkarekna. Þessi ákvörðun meirihluta borgarstjórnar er með öllu óskiljanleg og hefur vakið reiði í skólasamfélaginu. Það er sannarlega ekki forgangsmál nú að fjölga einkaskólum í borginni með tilheyrandi tugmilljóna aukakostnaði úr borgarsjóði, á sama tíma og þrengt er að almennum grunnskólum.

Nú ríður á að horfast í augu við staðreyndir, yfirvofandi niðurskurð sem verður þungur í skauti fyrir alla skóla borgarinnar. Nú er lag að hlúa að innviðunum, styðja við grunnskólana svo þeir geti sinnt faglegu skólastarfi sem best miðað við aðstæður. Hægrimenn í borgarstjórn bera gjarnan fyrir sig að fjölbreytni í rekstrarformi ýti undir þróun og nýbreytni í skólastarfi. Það þykir mér hæpin staðhæfing. Ekki nema borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geti sannað það með óyggjandi hætti að eftirtektarverð og margverðlaunuð þróunar- og nýbreytniverkefni grunnskóla borgarinnar séu allt tilvist einkarekinna grunnskóla að þakka? Nei, þau bera vitni um fagmennsku, grósku og gæði reykvískra grunnskóla.

Borgarbúar geta treyst því að Samfylkingin forgangsraðar í þágu samfélagsins. Grunnskólinn er ein mikilvægasta stofnun þess og að honum ber að hlúa. Ég geri bókun reykvískra skólastjóra og kennara í menntaráði að mínum lokaorðum: „Almennir grunnskólar Reykjavíkurborgar vinna innihaldsríkt og skapandi starf með nemendum sínum og eru fullfærir um að sinna skólagöngu allra barna í borginni – án sérstakrar gjaldtöku.“

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×