Viðskipti innlent

Góður gangur í framkvæmdum út á Granda

Nú standa yfir framkvæmdir á vegum Faxaflóahafna sf við ýmis verkefni við grjótröðun og frágang hafnarkanta á Slippasvæðinu, frágangur á undirstöðum fyrir göngubrautir við sjó og bygging á útivistar- og setpöllum við Grandagarð 8.

Fjallað er um málið á vefsíðu Faxaflóahafna. Þar segir að síðastliðið sumar óskuðu Faxaflóahafnir sf eftir tilboðum í þetta verk og í framhaldi af því var gengið til samninga við lægstbjóðanda, Ísar ehf um verkið, en tilboð hans var 69,7 % af kostnaðaráætlun. Höfnin lagði aftur á móti til verks allt timbur sem er harðviður.

Verktakinn hóf síðan verkið síðla sumars og þessa dagana eru ýmsir verkáfangar að taka á sig mynd. Pallasmíði við Grandagarð 8 er að ljúka, grjótröðun á landköntum í gangi og samhliða lokið niðurrekstri á undirstöðustaurum fyrir göngubrautir sem byggðar verða þarna síðar. Þessum áfanga framkvæmda líkur síðan í desember.

Við verklok þessara framkvæmda má segja að nokkrar áhugaverðustu lóðir til úthlutunar og uppbyggingar hér í Reykjavík séu nú að verða tilbúnar. Unnið hefur verið að framkvæmdum við frágang á þessum lóðum nokkuð jafnt og þétt á árunum 2007- 09 og lokið er efnisskiptum, landfyllingum, landmótun og gatnagerð.

Við upphaf framkvæmda var ákveðið að áfangaskipta framkvæmdum á Slippasvæðinu og fyrst yrði vesturhluti svæðis undirbúinn fyrir uppbyggingu á nýrri byggð, en ekki hreyft við austurhluta svæðis og upptökumannvirkjum fyrr en síðar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×