Viðskipti innlent

Birna svarar: Leiðrétting en ekki niðurfelling skulda

„Í raun ganga hugmyndir Íslandsbanka út á leiðréttingu á höfuðstól en ekki beina niðurfellingu. Aðferðafræðin gengur út á að skipta þessum lánum yfir í óverðtryggð lán í íslenskum krónum. Við gerum okkur grein fyrir að vextir á óverðtryggðum lánum verða líklegast hærri til að byrja með."

Þetta segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Ísalandsbanka í svari við spurningum visir.is um útfærslur bankans á aðstoð við þá sem eiga í vandamálum með skuldir sínar.

„Til þess að létta undir með heimilum myndi bankinn bjóða þeim uppá að greiðslujafna þessi lán fyrstu þrjú árin með svokölluðu teygjuláni sem þýðir að afborganir lækka tímabundið, líkt og á sér stað í dag í greiðslujöfnun verðtryggðra og gengistryggðra húsnæðislána," segir Birna.

Hverjir fá að njóta leiðréttingar ef til hennar kemur eða koma þeir skuldugustu eingöngu til greina?

„Okkar hugmyndir ganga útá leiðréttingu fyrir alla viðskiptavini sem eru með gengistryggð og verðtryggð húsnæðislán gegn því að viðkomandi skipti yfir í óverðtryggð lán í íslenskum krónum. Það er viðskiptavinur getur valið hvort hann fer þess leið eða ekki. „

Er eðlilegt að þeir sem tóku mikla áhættu í lántökum sínum njóti sömu réttinda og þeir sem fóru varlega, t.d. ungt fólk og lágtekjufólk sem í raun gat ekkert gert í þeim vandamálum sem það stendur frammi fyrir?

„ Við erum að upplifa óvenjulega tíma og þurfum því að fara óvenjulegar leiðir. Sú leið sem bankinn er að skoða felur ekki í sér afskriftir skulda og í henni felst ekki mat á því hvort um óhóflega skuldsetningu vegna íbúðahúsnæðis hafi verið að ræða eða ekki, lausnin er hugsuð sem almennt úrræði. Komi til annarra úrræða, til dæmis frá hendi hins opinbera, munu þeir viðskiptavinir sem ákveða að fara þessa leið hafa sama rétt til þeirra úrræða og áður. Fyrir þá aðila sem þessi lausn reynist ekki duga, verður áfram boðið uppá sértækar lausnir sem hafa það að markmiði að skoða stöðu hvers og eins og leita úrræða á þeim grunni, til að mynda greiðsluaðlögun."

Teljið þið að það sé ekki brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar ef fólki verður mismunað út frá skuldastöðu sinni?

„Eins og fyrr segir er um almenna úrlausn að ræða fyrir alla viðskiptavini sem eru með verðtryggð og gengistryggð húsnæðislán og óska eftir því að skipta þeim yfir í óverðtryggð húsnæðislán í krónum. Því ekki um mismunun að ræða ."

Ef til skuldaniðurfellingar kemur hjá Íslandsbanka, þurfa ekki allir viðskiptabankarnir að fylgja fordæmi Íslandsbanka og gæti það ekki reynst erfitt?

„Ekki er um að ræða skuldaniðurfellingar heldur leiðréttingu á höfuðstól gegn því að viðskiptavinurinn velji að fara úr gengistryggðu eða verðtryggðu láni yfir í óverðtryggt lán. Við teljum mikilvægt að sem mest samræmi sé á milli þeirra leiða sem bankar og aðrar fjármálastofnanir bjóða viðskiptavinum sínum og höfum lagt áherslu á samstarf um þessi mál, þó þannig að ekki sé farið gegn samkeppnissjónarmiðum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×