Viðskipti innlent

Hagsjá: Innistæðubréf Seðlabankans eru að virka

Hagfræðideild Landsbankans telur að innistæðubréf Seðlabankans séu að ná tilgangi sínum og það séu líkur á að Seðlabankinn hafi náð að metta þá spurn sem var eftir innstæðubréfum og í leiðinni draga úr lausafé í kerfinu, líkt og stefnt var að.

Þetta kemur fram í Hagsjá deildarinnar. Þar segir að Seðlabankinn hélt sitt fimmta útboð á innstæðubréfum í gær en um leið var fjárhæð fyrsta útboðs velt áfram þar sem endurkaupadagur þess var í dag. Í útboði dagsins var tilboðum einungis tekið fyrir 4,8 milljarða kr. sem er mjög lítið miðað við þá 25 miljarða kr. sem voru á gjalddaga. Jafnframt voru vextir tekinna tilboða 10% sem er jafnt þeim efri mörkum sem Seðlabankinn ákvað að yrðu í útboðunum.

Í fyrstu tveimur útboðum Seðlabankans, eftir að ákveðið var að hefja þau í lok september, var tekið tilboðum fyrir alla þá fjárhæð sem í boði var, fulla 25 milljarða kr. Niðurstöður þeirra þriggja útboða sem komið hafa í kjölfarið eru hins vegar töluvert lægri eins og sjá má í meðfylgjandi töflu, og raunar lægri en upphaflega var ætlað.

Samkvæmt tilkynningu Seðlabankans var ætlunin að bjóða út innstæðubréf að andvirði 15-25 milljarða kr. hverju sinni með 9,5% lágmarksvextir og 10% hámarksvexti. Í síðustu þremur útboðum hefur upphæðin verið undir þessu marki auk þess sem vextirnir eru við efri mörk þess bils sem Seðlabankinn setti. Það eru því líkur á að Seðlabankinn hafi náð að metta þá spurn sem var eftir innstæðubréfum og í leiðinni dregið úr lausafé í kerfinu, líkt og stefnt var að.

Skoðun á vöxtum á millibankamarkaði rennir frekari stoðum undir þetta. Strax eftir annað útboð Seðlabankans, þegar innstæðuflokkurinn var orðinn 50 milljarðar kr. að stærð, hækkuðu vextir á millibankamarkaði með krónur (Reibor) umtalsvert.

Viku síðar hækkuðu þeir á ný sem er til marks um að bankar fara nú fram á hærri vexti eigi þeir að lána sín á milli. Hins vegar hefur engin velta verið á þessum markaði undanfarna mánuði sem gerir erfitt að túlka hækkun vaxta til hlítar, að því er segir í Hagsjánni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×