Innlent

Hundruð ábendinga um svik á vinnumarkaði

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Mynd/Valli
Ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnun hafa borist hundruð ábendinga um svik af ýmsu tagi í gegnum svikahnappa á heimasíðum stofnananna.

Í upphafi mánaðarins tilkynnti félagsmálaráðuneytið um rassíu gegn svikum á vinnumarkaði.

Í kjölfarið setti Ríkisskattstjóri svikahnapp á heimasíðu embættisins þar sem almenningur getur sent nafnlausar ábendingar um meint skattsvik eða svarta vinnu. Slíkur hnappur hefur verið á heimasíðu vinnumálastofnunar frá því í maí.

Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hafa borist um áttatíu ábendingar í gegnum hnappinn síðan honum var komið fyrir á heimasíðunni fyrir rúmum tveimur vikum.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir svipaðan fjölda ábendinga hafa borist í gegnum sinn hnapp vegna gruns um svik gegn atvinnubótakerfinu, eða um 78 það sem af er mánuðinum.

Hann segir Vinnumálastofnun hafa borist alls 201 athugasemd frá því hnappnum var komið fyrir í maí.

Farið er yfir allar athugasemdir sem berast stofnunum og þær settar í viðeigandi farveg. Gissur segir til dæmis að teymi á vegum stofnananna tveggja fari í heimsóknir í fyrirtæki í dag til að uppræta svik á vinnumarkaði.

Önnur lykilstofnun velferðarþjónustunnar, Tryggingastofnun, kom einnig fyrir svikahnappi á sinni vefsíðu í síðustu viku. Það liggja þó ekki fyrir tölur um fjölda tilkynninga þar að svo stöddu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×