Viðskipti innlent

„Viðskiptavinir okkar bera traust til MP Banka“

Gunnar Örn Jónsson skrifar
„Við erum að sjá alveg gríðarlega aukningu í skuldabréfaveltu eftir fall stóru viðskiptabankanna. Bankinn er að byggja skuldabréfamiðlunina markvisst upp og ég tel að þessi hlutdeild MP Banka sýni að okkar viðskiptavinir bera traust til bankans," segir Styrkár Hendriksson, forstöðumaður markaðsviðskipta hjá MP Banka.

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að MP Banki hafi verið með mestu skuldabréfaveltuna í Kauphöllinni fyrstu sjö mánuði ársins.

Hann segir auk þess að bankinn hafi alltaf stundað skuldabréfaviðskipti fyrir bankann og kúnna hans. „Kúnnarnir eru mjög ánægðir með framkvæmd viðskipta hjá okkur og við erum að ná fram mjög góðum verðum fyrir kúnnana með því meðal annars að auka markaðshlutdeild okkar í verðbréfaviðskiptum," segir Styrkár.

Kúnnahópurinn hjá MP Banka er að mestu leyti fagfjárfestar og stofnanafjárfestar. Áhugi á skuldabréfum hjá þessum hópum hefur aukist töluvert að sögn Styrkárs.

Aðspurður um mikil innlán bankans, eftir að bankinn stofnaði innlánsreikninga fyrir viðskiptavini sína fyrr á árinu, segir Styrkár:

„Það gefur okkur slagkraft inn í framtíðina til að styðja við fyrirtækin í áframhaldandi vexti þegar tækifærin fara að gefast á ný í efnahagslífinu. Þá komum við til með að lána þessa peninga út."

Þannig að þið sjáið fram á aukna markaðshlutdeild í fyrirtækjaviðskiptum:

„Já við gerum það vissulega, við sjáum fram á aukna markaðshlutdeild í þeim viðskiptum og eins með kaup og sölu fyrirtækja og heildarfjármögnun þeirra," segir Styrkár.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×