Viðskipti innlent

Deloitte annast endurskoðun á Seðlabanka Íslands

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ríkisendurskoðun hefur samið við endurskoðunarfélagið Deloitte hf. um að annast ytri endurskoðun Seðlabanka Íslands á tímabilinu 2009-2011. Þá hafa Ríkisendurskoðun og Seðlabankinn samið um að stofnunin annist innri endurskoðun bankans á sama tímabili.

Í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun kemur fram að í júlí síðastliðnum hafi Ríkisendurskoðun, sem lögum samkvæmt annast endurskoðun Seðlabankans, falið Ríkiskaupum að bjóða út ytri endurskoðun bankans. Tilboð bárust frá fjórum endurskoðunarfélögum: Deloitte hf., KPMG hf., PricewaterhouseCoopers hf. og BT sf. Allir bjóðendur nema sá síðastnefndi uppfylltu skilyrði útboðsins og af þeim sem uppfylltu þau reyndist verðið lægst hjá Deloitte. Samningur milli Ríkisendurskoðunar og Deloitte var undirritaður 24. júlí síðastliðinn og nær til þriggja ára, 2009-2011.

Samkvæmt samningnum mun félagið endurskoða ársreikning bankans og árita hann í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Jafnframt skal það árita hálfsársuppgjör bankans með könnunaráritun. Hins vegar felur verkefnið ekki í sér stjórnsýsluendurskoðun og verktaki má hvorki veita bankanum ráðgjöf sem ekki tengist beint starfi hans sem endurskoðanda né sinna öðrum störfum sem geta haft áhrif á óhæði hans.

Þá undirrituðu Ríkisendurskoðun og Seðlabankinn nýlega samning um að stofnunin taki að sér vinnu við innri endurskoðun bankans á tímabilinu 2009-2011. Samkvæmt samningnum skal Ríkisendurskoðun m.a. leggja mat á og bæta virkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnunarhátta með kerfisbundnum og öguðum vinnubrögðum og styðja þannig bankann í að ná markmiðum sínum. Áður annaðist deild innri endurskoðunar í bankanum þetta verkefni.

Í tilkynningu frá Ríkisendurksoðun kemur fram að framangreindar breytingar á fyrirkomulagi ytri og innri endurskoðunar Seðlabanka Íslands eru í samræmi við samkomulag íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×