Innlent

Vinirnir reyndu að lífga hinn látna við

Hafþór Hafsteinsson lést í flugslysinu.
Hafþór Hafsteinsson lést í flugslysinu.

Maðurinn sem slasaðist í flugslysinu við Selá í Vopnafirði í fyrradag liggur þungt haldinn í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans. Vinur hans lést í slysinu.

Mennirnir komu til Vopnafjarðar á þriðja tímanum í fyrradag. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins snæddu þeir með vinum í veiðihúsinu Hvammsgerði við Selá áður en þeir sneru aftur til Vopnafjarðar og hugðust fljúga suður til Mosfellsbæjar. Mennirnir höfðu báðir mikla reynslu af flugi.

Í stað þess að fljúga rakleiðis suður flugu mennirnir aftur að veiðihúsinu í því skyni að kasta kveðju á vini sína úr vélinni. Þeir sátu í framsætum vélarinnar. Það var þá sem slysið varð; vélinni var flogið á raflínur og hrapaði til jarðar. Raflínurnar voru í um tíu metra hæð frá jörðu.

Vinir mannanna úr veiðihúsinu urðu vitni að slysinu. Þeir hlupu þegar til og reyndu að koma vinum sínum til hjálpar. Þeir gerðu lífgunar­tilraunir á öðrum manninum, en hann hafði látist samstundis, og hlúðu að hinum særða.

Spurður um viðbrögð mannanna segir Baldur Friðriksson, læknir á Vopnafirði, að þau hafi kannski ekki skipt sköpum. „En þetta var mjög góð tilraun til að bjarga því sem bjargað varð," segir Baldur.

Fjöldi sjúkraliða og björgunarsveitarmanna kom að aðgerðinni. Aðkoman að slysinu var ófögur og var bæði vitnum og þeim sem að aðgerðinni komu boðin áfallahjálp í fyrrakvöld. Þá var þeim boðið til bænastundar í Vopnafjarðarkirkju um kvöldið. Starfi kirkjunnar við áfallahjálpina vegna málsins er þó hvergi nærri lokið, að sögn Brynhildar Óladóttur, starfandi prests í Vopnafjarðarkirkju.

Flugvélin, sem er fjögurra sæta Cessna 180 með skráningar­númerið TF-GUN, var flutt af slysstað eftir miðnætti og síðan ekið með hana í gámi til Reykjavíkur í gær. Nú mun Rannsóknarnefnd umferðarslysa rannsaka málið næstu mánuði, og meðal annars skoða vélina betur.

Þetta er fyrsta banaslysið í íslenskri flugvél í níu ár, eða frá því að lítil tveggja hreyfla flugvél skall í Skerjafjörðinn í ágúst árið 2000. Þá létust sex manns. Þrjár erlendar vélar, með útlendinga innanborðs, hafa reyndar farist á þeim tíma í íslenskri lofthelgi.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×