Fjallað er um birtingu lánabóka Kaupþings á forsíðu fréttavefjar Telegraph í dag. Þar segir að Kaupþing, sem hafi verið miðpunkturinn í hruni íslenska fjármálakerfisins, hafi lánað milljarða punda til fyrirtækja sem tengdust lykilstjórnendum og hluthöfum í fyrirtækinu.
Vísað er í glærur sem birtust á vefnum wikileaks.org. Segir Telegraph að glærurnar virðist varpa ljósi á óvenjuelga lánastarfsemi Kaupþings aðeins tveimur vikum áður en íslenska fjármálakerfið hrundi í október, með þeim afleiðingum að innistæðueigendur töpuðu milljónum.
Eins og kunnugt er fór skilanefnd Kaupþings og stjórnendur Nýja Kaupþings fram á lögbann á fréttaflutning RÚV þegar sagt var frá gögnunum á wikileaks. Núna hefur verið ákveðið að höfða ekki staðfestingarmál vegna lögbannsins.
