Viðskipti innlent

Kostnaður vegna varnarmála tveir milljarðar árið 2008

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Ellisif TInna Víðisdóttir, forstjóri Varnarmálastofnunar.
Ellisif TInna Víðisdóttir, forstjóri Varnarmálastofnunar.
Gjöld utanríkisráðuneytisins vegna varnarmála námu tveimur milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt ríkisreikningi fjársýslu ríkisins. Varnarmálastofnun ber stærstan hluta kostnaðar af varnarmálum hér á landi eða 600 milljónir. Stofnunin heyrir undir utanríkisráðuneytið en Alþingi setti varnarmálalög þann 29. apríl á síðasta ári.

Nokkur umræða hefur verið um framtíð Varnarmálastofnunar en Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, telur rétt að hætta loftrýmisgæslunni sem stofnunin sér um. Auk þess hefur hann látið hafa eftir sér að stefna ríkisstjórnarinnar sé að leggja Varnarmálastofnun niður.

Utanríkisráðherra skipaði Ellisif Tinnu Víðisdóttur, forstjóra Varnarmálastofnunar til fimm ára frá og með 1. júní árið 2008 en þann dag tók stofnunin formlega til starfa.

Laun og launatengd gjöld Varnarmálastofnunar námu 230 milljónum króna og rekstur loftrýmisbúnaðar kostaði rúmlega 114 milljónir króna. Heildarkostnaður við rekstur fasteigna á vegum NATO nam rúmum 69 milljónum króna. Sem fyrr segir var heildarkostnaður stofnunarinnar rétt tæplega 600 milljónir.

Hlutverk Varnarmálastofnunar

Varnarmálastofnun sér meðal annars um rekstur íslenska loftvarnakerfisins og tekur þátt í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu NATO. Stofnunim hefur auk þess umsjón með rekstri og hagnýtingu öryggissvæða og mannvirkja og umsjón varnaræfinga hérlendis.

Kostnaður af starfi nefnda og undirstofnana NATO heyrir undir Varnarmálastofnun sem og sá kostnaður sem hlýst af verkefnum er varða framkvæmd varnarsamningsins.

Markmið Varnarmálastofnunar er fjórþætt

Í fyrsta lagi að afmarka valdheimildir íslenskra stjórnvalda varðandi varnartengd verkefni.

Í öðru lagi að greina á milli varnartengdra verkefna og borgaralegra verkefna sem lúta að löggæslu og innra öryggi ríkisins.

Í þriðja lagi að greina á milli stefnumótunar og framkvæmdaratriða á sviði varnarmála og loks að auðvelda lýðræðislegt eftirlit með varnartengdri starfsemi.

Fimmtiu og fjórir starfsmenn eru fastráðnir hjá Varnarmálastofnun. Fjárheimildir stofnunarinnar nema 1.227 milljónum króna á árinu 2009.










Tengdar fréttir

Loftrýmisgæslu verði hætt

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að leggja eigi niður Varnarmálastofnun um áramótin. Í fjárlögum næsta árs eigi að vera skýrt hvaða verkefni hennar verði lögð niður og hvert hin verði færð. Árni Þór vill leggja loftrýmis­gæslu niður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×