Viðskipti innlent

Álftanes gjaldþrota, skuldir nema fimmföldum tekjum

Sveitarfélagið Álftanes er komið í greiðsluþrot og nema heildarskuldir þess fimmföldum tekjunum. Sveitarfélagið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar og viðskiptabanki þess hefur lokað fyrir frekari viðskipti. Þetta eru m.a. niðurstöður skýrslu Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga (EFS) sem birt hefur verið á vefsíðu kauphallarinnar.

Fram kemur í skýrslu EFS að skuldir og skuldbindingar Álftanes nemi samtals um 7,4 milljörðum kr. Þar af eru skuldbindingar utan efnhags tæplega 3 milljarðar kr. einkum vegna langtímasamnings við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf.

Heildarskuldir og skuldbindingar Álftanes í ár nema rúmlega 495% af heildartekjunum. Af reglulegum tekjum er hlutfallið 626% þegar frá eru taldar bókfærðar tekjur vegna sölu á byggingarrétti 2009.

Skýrsluhöfundar segja að miðað við sömu skatttekjur á næsta ári og þær verða í ár þurfi að skera rekstrarútgjöld niður um tæplega 900 milljónir kr. til að eiga fyrir öllum rekstri málaflokka og afborgunum á næsta ári. Er þá ekki gert ráð fyrir neinum fjárfestingarútgjöldum.

Áætluð greiðslubyrði lána á næsta ári nemur um 626 milljónum kr., þar af eru 430 milljón kr. kúlulán.

Þá segir í skýrslunni að þrátt fyrir 832 milljón kr. halla á rekstri sveitarfélagsins árið 2008 hafi stjórnendur Álftanes ekki gripið til viðhlítandi hagræðingar til að koma rekstrinum í jafnvægi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×