Viðskipti innlent

Samkomulag um áframhaldandi rekstur Fosshótels Baron

Nýlega var undirritaður samningur milli Fosshótela ehf. og Neskjara ehf. um áframhaldandi samstarf aðila. Ágreiningur sá er upp kom aðila í millum hefur þar með verið leystur.

Í tilkynningu segir að samningurinn sem um ræðir felst í áframhaldandi leigu á húsnæði því sem Neskjör eiga og Fosshótel hafa leigt undir rekstur Fosshótels Baron frá árinu 2003. Gildistími hins nýja samnings er til ársins 2029.

Samningurinn felur meðal annars í sér að ráðist verður í umtalsverðar endurbætur á hótelinu. Endurbæturnar munu eiga sér stað í áföngum, hefjast á næstu dögum og verður lokið á 4 árum. Það er Ólafi D. Torfasyni sérstakt ánægjuefni að gera grein fyrir þessum tíðindum.

Ágreiningur sá sem vísað er til í tilkynningunni endaði í síðasta mánuði með því að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að Fosshótel yrðu borin út úr húseigninni Barónstígur 2-5 vegna vanefnda á kaupsamningi. Fosshótel keyptu húsið af Neskjörum fyrir ári en voru áður með húsnæðið á leigu í nokkur ár. Kaupverðið var 900 milljónir kr.

Samkvæmt dóminum gátu Fosshótel hafi ekki efnt kaupsamninginn, þar sem fyrirtækið fékk ekki samþykki Nýja Landsbankans, NBI, fyrir yfirtöku lána Neskjara, sem hvíla á húsinu. Fosshótel gat heldur ekki greitt lánin upp og því tilkynntu Neskjör í mars s.l. að kaupunum væri rift. Nú er málið sumsé leyst.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×