Skoðun

Málsvörn framsóknarmanna

Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um viðskipti Kópavogsbæjar við fyrirtækið Frjálsa miðlun sem er í eigu dóttur bæjarstjórans Gunnar I. Birgissonar. Fjölmiðlar hafa gert málinu skil og dregið fram atriði sem krefjast skýringar.

Fáir hafa tjáð sig opinberlega en þó eru dæmi um það. Einn af trúarleiðtogum Sjálfstæðisflokksins, Gunnar í Krossinum tjáð sig um máli nýlega. Þá hefur formaður Sjálfstæðisflokksins sagt að hann skorti skilning og upplýsingar um málið.

Samfylkingin er málshefjandi en hefur ekki sett fram skýrar kröfur í málinu en það verður að teljast mikilvægt að hún geri það.

Framsóknarmenn hafa haldið fund um málið og lauk honum með þeirri ákvörðun að rétt væri að bíða skýrslu endurskoðanda áður en til frekari aðgerða verður gripið. Leggjum við jafnframt áherslu á að vinnan verði vönduð og flýtt eins og unnt er.

Þess skal getið að margir framsóknarmanna eru ósáttir við þessa afstöðu og benda á að þarna er möndlar með útsvarspeningana okkar. Til málsbóta verður að segja að uppgefnar tölur eru með virðisauka og aðkeyptri þjónustu svo sem prent kostnaði og fleiru. Þetta er rétt að hafa í huga.

Þó sýnist sem einn rauður þráður gangi í gegnum stöðumat margra en það er að samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á undanförnum árum hefur skilað góðu búi ekki síst á tímabili Sigurðar Geirdal. Má jafnvel segja að þar í felist málsbætur sem komi til refsilækkunar - ef þannig má að orði komast.

Það liggur hinsvegar einnig fyrir að Framsóknarflokkurinn mun ekki sitja undir því mati að þessi viðskipti séu eðlileg og ógagnrýniverð og vill leggja sitt af mörkum til að ná sáttum við bæjarbúa. Framsóknarflokkurinn í Kópavogi mun ekki láta sitt eftir liggja og ef Sjálfstæðisflokkurinn finnur ekki leið út úr þessum ógöngunum hljótum við Framsóknarmenn að endurskoða afstöðu okkar til málsins í heild sinni.

Höfundur er formaður Framsóknarfélags Kópavogs.




Skoðun

Sjá meira


×