Viðskipti innlent

Hagnaður Landsvaka tæplega eitt hundrað milljónir

Stjórn Landsvaka hf., sem rekur verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði Landsbankans, hefur staðfest árshlutauppgjör félagsins fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2009. Hagnaður af rekstri félagsins fyrstu sex mánuði ársins nam 96,9 milljónum króna samkvæmt rekstrarreikningi félagsins.

Eigið fé Landsvaka í lok júní nam 238,6 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi. Eiginfjárhlutfall félagsins nam 44,9%.

Ársreikningi félagsins er skipt í tvo hluta, A-hluta sem inniheldur ársreikning rekstrarfélagsins og B-hluta sem inniheldur ársreikning verðbréfa-, fjárfestinga- og fagfjárfestasjóða. Þessi framsetning á reikningnum er í samræmi við reglur um reikningsskil rekstrarfélaga verðbréfasjóða sem settar voru af Fjármálaeftirlitinu.

Á fyrri hluta ársins annaðist Landsvaki hf. rekstur 26 sjóða um sameiginlega fjárfestingu samanborið við 30 sjóði á sama tímabili 2008 en á tímabilinu voru stofnaðir 2 nýjir sjóðir og 2 sjóðum var slitið. Í lok tímabilsins nam heildarstærð sjóða í rekstri Landsvaka 44,3 milljörðum króna.

Þær aðstæður sem sköpuðust á íslenskum fjármálamarkaði við fall bankanna í byrjun október 2008 hafa haft mikil áhrif á rekstrarumhverfi félagsins og orsakað að heildareignir í stýringu hafa minnkað verulega.

Landsvaki hf. er rekstrarfélag sem starfar á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki og annast rekstur verðbréfa- og fjárfestingarsjóða. Landsvaki hf. er í eigu Landsbankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×