Erlent

Vinir Húgós

Óli Tynes skrifar
Hugo Chavez forseti Venesuela.
Hugo Chavez forseti Venesuela.

Hugo Chaves forseti Venesúela hefur tekið upp hanskann fyrir hryðjuverkamanninn Carlos sem þekktastur er undir nafninu Sjakalinn.

Í ræðu sem hann flutti um helgina sagði Chavez; -Þeir kalla hann hryðjuverkamann en Carlos var í raun byltingarhermaður sem studdi málstað palestínumanna. Ég ver hann og mér er alveg sama hvað þeir segja í Evrópu.

Carlos sem réttu nafni heitir Illich Ramirez Sanches afplánar nú ævilangan fangelsisdóm í Frakklandi fyrir morðin á tveim frönskum leyniþjónustumönnum og libyskum uppljóstrara.

Á sjöunda og áttunda áratugnum stóð hann á bak við mörg flugrán, morð og hryðjuverkaárásir um alla Evrópu og Miðausturlönd.

En Hugo Chavez á sér fleiri vini. Í ræðu sinni bar hann einnig blak af Robert Mugabe forseta Zimbabwes og Ahmadinejad forseta Írans.

Þá kvaðst hann vera farinn að efast um að Idi Amin fyrrverandi forseti Uganda væri jafn slæmur og af er látið.

-Við héldum að hann væri mannæta, en ég efast. Kannski var hann mikill þjóðernissinni og föðurlandsvinur, sagði forseti Venesuela.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×