Skoðun

Kærastinn hæfastur?

Stúdentaráð Háskóla Íslands réð sér framkvæmdarstjóra á dögunum. Samkvæmt lögum ráðsins skal framkvæmdarstjóri vera faglega ráðinn. Um er að ræða fullt starf sem felst í yfirliti með bókhaldi og rekstri skrifstofu SHÍ. Um stöðuna sóttu að þessu sinni þrír umsækjendur A, B og C. Tveir þessara umsækjanda, A og B, eru Stúdentaráðsliðar fyrir Vöku, sem hefur nú meirihluta í ráðinu. C er óháður.

Umsækjandi A er í BA námi við HÍ. Hann sótti um stöðu framkvæmdastjóra SHÍ fyrir ári síðan en var ekki ráðinn. Vaka hótaði þá að kæra þá ráðningu á grundvelli þess að gengið hefði verið fram hjá hæfasta umsækjandanum. Nú var þó komið annað hljóð í strokkinn, því þrátt fyrir að Vaka hafi talið A hæfasta umsækjandann í fyrra var hann ekki ráðinn í ár.

Umsækjandi C tilheyrir engri fylkingu innan Stúdentaráðs, hefur lokið BA gráðu og er í meistaranámi í mannauðsstjórnun við skólann. C hefur starfað undanfarin tvö ár sem framkvæmdarstjóri Stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands, sem nú hefur sameinast HÍ. Umsækjandi C var ekki ráðinn í starfið.

Umsækjandi B er í BA námi við HÍ og hefur setið í stjórn nemendafélags við skólann sem og í stjórn Stúdentasjóðs. Hann er einnig kærasti núverandi formanns Stúdentaráðs fyrir hönd Vöku. Umsækjandi B var ráðinn framkvæmdastjóri SHÍ.

Stúdentar við HÍ eiga heimtingu á að vita hvað lá því til grundvallar að B var ráðinn í starfið. Hvað réð því að hann var metinn hæfari en umsækjandi A, sem Vaka taldi hæfasta umsækjandann í fyrra, og umsækjanda C, sem býr yfir sambærilegri starfsreynslu og þeirri sem sóst var eftir, auk meiri menntunar en hinir umsækjendurnir? Engin augljós málefnaleg ástæða er fyrir því að C var ekki ráðinn í starfið og kalla ég eftir þeirri ástæðu.

Að framangreindu ber ekki á öðru en að meirihluti stjórnar Stúdentaráðs hafa brotið eigin lög, sýnt hæfum umsækjendum lítilsvirðingu og orðið sjálfum sér þar með til mikillar minnkunar.

Höfundur situr í stjórn SHÍ fyrir Röskvu.




Skoðun

Sjá meira


×