Erlent

Dýrt bensín fjölgar vélhjólaslysum í Bandaríkjunum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Banaslysum vélhjólafólks hefur fjölgað um rúmlega 3.000 á ári eftir að eldsneytisverð rauk upp í Bandaríkjunum.

Meðalfjöldi mannskæðra vélhjólaslysa á ári frá 1997 til 2007 hefur farið úr 2.116 í 5.154 og rekur dr. Fernando Wilson við heilbrigðisvísindadeild Háskólans í Norður-Texas þetta til síhækkandi eldsneytisverðs. Hvernig dettur manninum það í hug? Jú, vitanlega leggja hagsýnir Bandaríkjamenn bílnum eða selja hann og skera eldsneytiskostnaðinn niður með því að þeysa á mótorfák frá A til B. Með fjölgun slíkra farartækja í umferðinni fjölgar slysum þeim tengdum eðlilega um leið.

Dr. Wilson hefur meira að segja sett fram frekar óhugnanlega jöfnu sem gefur til kynna að fyrir hvern dollara sem bensínverð hækkar, það er að segja 122,6 krónur á gengi dagsins, fjölgi banaslysum á vélhjólum um 1.500 miðað við ár. Gagnrýnendur hafa bent á að sú staðreynd að notkun vélhjólahjálma sé ekki lögbundin í sex ríkjum Bandaríkjanna skekki þessa tölfræði en þegar rannsakendur kipptu þeim ríkjum úr útreikningum sínum breyttust tölurnar ekki svo marktækt væri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×